Þegar líkaminn segir stopp
- Börkur Brynjarsson
- Apr 16
- 2 min read

Í dag átti ég samtal við vin minn sem brann út. Hann er harðduglegur maður, vanur því að taka lífið á sínum herðum og klára verkefnin sama hvað. Hann sagði mér frá því hvernig kulnunin hafði læðst að honum – ekki með hávaða og dramatík, heldur í gegnum langvarandi líkamlega verki og sterka löngun til að halda áfram.
Hann var kominn með verki um allan skrokk, en hélt áfram að mæta í vinnu með aðstoð sterkra verkjalyfja. Þegar hann leitaði til læknis til að fá meira af lyfjunum spurði læknirinn:
„Heyrðu, þarft þú ekki aðeins að slaka á og taka þér pásu?“
Viðbrögðin voru hörð. Hann hafði engan tíma fyrir „svona kjaftæði“. Verkefnin biðu, fólk treysti á hann – og hann sagði lækninum að skrifa út lyfin svo hann kæmist aftur til vinnu. Og hann gerði það. Hélt áfram.
Sléttri viku síðar var hann á leið á verkstað sem hann þekkti vel. En þegar hann kom á svæðið gerðist eitthvað óútskýranlegt: hann vissi ekki hvar hann var, hvernig hann komst þangað – og vissi ekki einu sinni alveg hver hann sjálfur var. Allt varð óljóst.
Í örvæntingu tók hann upp símann og hringdi í síðasta númer sem hann hafði verið í sambandi við. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins svaraði. „Þekkirðu mig?“ spurði vinur minn. Áður en þessi annars léttlyndi framkvæmdastjóri áttaði sig á alvarleika málsins, hafði hann hlegið að spurningunni. En þegar hann áttaði sig, kom hann strax til aðstoðar.
Sami læknir og áður tók á móti honum og sagði:
„Já, þú hefðir kannski átt að hlusta á mig þarna um daginn.“
Og nú loksins hlustaði hann. Hann fór í veikindaleyfi. En eftir tvær vikur þótti honum nóg komið og vildi fara aftur til vinnu. Þar tók veggurinn á móti honum – fastar en áður – og hann varð að taka sér lengra frí.
Þetta er stutta útgáfan af sögunni hans. En hún dregur upp mynd sem margir kannast við – þó færri viðurkenni það upphátt. Hann, eins og ég og svo margir aðrir, hugsaði bara um að klára verkefnin, halda haus, vera ekki vælukjói. Hann keyrði áfram á hnefunum þangað til hann var kominn upp að olbogum.
Við erum ekki hönnuð til að lifa þannig. Það er ekki veikleikamerki að stoppa. Það er styrkur að viðurkenna takmörk – áður en líkaminn neyðir okkur til þess.
Til ígrundunar:
Hver eru viðvörunarljósin sem þú hefur hunsað?
Hefur þú einhvern tímann fengið boð frá líkamanum um að hægja á – og hvernig brást þú við?
Ef vinur þinn væri að keyra sig áfram í átt að vegg, myndir þú þora að stíga inn og spyrja hvort hann vilji taka pásu?
Comments