top of page
Search

„Þú ert ekki það sem þú getur – þú ert það sem þú gerir“

Þessi setning – sögð við mig af vini eftir að ég lauk 250 km áfangahlaupi sem ég hafði skipulagt sjálfur – hefur fylgt mér síðan. (Hún er upphaflega komin frá Einari Erni í Rokk í Reykjavík – og situr fast.)


Ég hef tekið þátt í þremur svona löngum hlaupum, en þetta hlaup var sérstakt. Upphaflega hafði ég skráð mig í annað hlaup, en vegna Covid var því aflýst. Og það var pínu erfitt að horfa á draum brotna og gera svo bara... ekkert. Þess í stað ákvað ég að búa til mitt eigið hlaup. Fimm dagar, einn mestallan tímann, með sjálfan mig, með náttúruna og með vilja minn að leiðarljósi. Þegar vinur minn sagði þessi orð – „Þú ert ekki það sem þú getur – þú ert það sem þú gerir“ – þá skildi ég þau ekki bara, ég fann þau. Í líkamanum, í hjartanu, í hverju einasta skrefi.


Núna um helgina vann ég við Bakgarðshlaupið og þessi setning kom aftur sterkt upp í huga mér.


Ef þú þekkir ekki formið: hlaupið er byggt upp af 6,7 km hringjum sem hefjast á klukkutíma fresti. Þú klárar einn hring – og þá stendurðu frammi fyrir spurningunni: Ætla ég að fara aftur af stað? Í hverjum hring kemurðu í mark og getur í raun „klárað“ – en keppnin heldur áfram þar til þú velur að hætta. Enginn annar tekur ákvörðunina fyrir þig. Þetta er ekki bara líkamlegt þolpróf – þetta er keppni við hausinn, við raddina sem hvíslar: Af hverju ertu að þessu? Hefurðu ekki gert nóg?


Það sem mér finnst svo djúpt við svona hlaup – og sérstaklega Bakgarðinn – er að þau færa okkur nær kjarna sjálfsins. Hver hringur er lítil æfing í því að velja. Að mæta sjálfum sér, þreytunni, óvissunni – og ákveða að halda áfram. Aftur og aftur. Þar skiptir ekki öllu hvað þú gætir gert. Það sem stendur eftir er það sem þú gerðir.


Við eigum öll ótrúlegt magn af möguleikum. Við getum margt. En hvað gerist ef við hættum að skilgreina okkur út frá því sem við gætum gert – og byrjum að horfa á það sem við veljum að gera, dag eftir dag?




Þú ert ekki það sem þú getur - þú ert það sem þú gerir
Þú ert ekki það sem þú getur - þú ert það sem þú gerir

Þrjár spurningar til þín:

  1. Hvenær hefur þú staðið frammi fyrir ákvörðun um að halda áfram – þótt enginn hafi krafist þess?

  2. Er eitthvað sem þú ert alltaf að ímynda þér að gera „einn daginn“ – en þarft kannski að byrja á í dag?

  3. Hver væri þú ef þú horfðir minna á möguleikana – og meira á verkin?

 
 
 

Comentarios


Hafðu samband

Klapparhlið 30, ib 204
Netfang: brb@brbadventure.com

  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram
  • YouTube

© 2023 BRB Adventure. Allur réttur áskilinn.

bottom of page