Ég hélt að ég væri "bara" þunglyndur – en í raun var ég útbrunninn
- Börkur Brynjarsson
- Apr 12
- 3 min read
Það tók mig langan tíma að átta mig á því hvað kulnun í raun og veru er.
Þegar ég greindist með þunglyndi og mikla kvíðaröskun, hélt ég að það væri sjálft vandamálið. Ég leitaði mér hjálpar, byrjaði að vinna í mér, en það leið að minnsta kosti hálft ár áður en ég áttaði mig á hinu raunverulega mynstri: ég var útbrunninn.
Kulnunin hafði verið að byggjast upp lengi – ár jafnvel – og þegar hún náði hámarki, þá brast eitthvað. Þá komu einkenni sem læknar kalla þunglyndi og kvíða. En fyrir mig var það ekki byrjunin, heldur niðurlagið á löngu ferli þar sem ég hafði gengið of oft og of mikið gegn sjálfum mér.
En hvað er kulnun eiginlega?
Kulnun (e. burnout) er djúp örmögnun sem nær til líkama, hugar og tilfinninga. Hún á sér rætur í langvarandi streitu og ójafnvægi – sérstaklega þegar við finnum okkur fast í álagi án þess að sjá tilgang eða fá næga endurnæringu.
Þetta er ekki bara að vera „stressaður“. Þetta er ekki bara „að hafa mikið að gera“. Þetta er ekki veikleiki.
Kulnun er viðbragð líkamans við því að þú hafir gengið fram úr þér, oft í góðum tilgangi – af metnaði, eldmóði, ábyrgð eða ástríðu. Það er líkaminn að segja: „Svona geturðu ekki haldið áfram.“
Kulnun, þunglyndi og kvíði – hver er munurinn?
Einkenni kulnunar skarast oft við þunglyndi og kvíða, sem gerir það erfitt að greina á milli. En það eru ákveðin sérkenni sem geta bent til kulnunar:
Kulnun | Þunglyndi | Kvíðaröskun |
Orsökin oft vinnuaðstæður eða kröfur | Uppruni óljós eða margþættur | Upplifað óöryggi og stjórnleysi |
Vaxandi sinnuleysi og tómleiki | Djúp vanlíðan og vonleysi | Viðvarandi áhyggjur og spennuástand |
Oft bundið ákveðnu hlutverki | Áhrif á lífsvilja, sjálfsmynd og orku | Líkamleg einkenni eins og hjartsláttur |
Leiðréttist oftast með breytingum á lífsstíl og væntingum | Krefst oft meðferðar og/eða lyfja | Getur krafist meðferðar, lærdóms og róunar |
Það sem gerir kulnun varasama er að hún læðist að – hægt. Við réttum úr okkur, bítum á jaxlinn, klárum verkefnið, sleppum pásunni, og segjum svo „ég tek þetta eftir helgi“. En þegar helgin kemur, er líkaminn farinn að skila af sér þyngslum, svefnleysi, innri dofa og jafnvel ofsakvíðaköstum.
Hvernig vissi ég að þetta var kulnun?
Ég vissi það ekki. Ekki fyrr en ég leit til baka og sá:
Hversu lengi ég hafði verið í „háspennuástandi“
Hvernig ég hafði látið eigin þarfir víkja fyrir markmiðum
Hversu lítið eftir var af gleði, sköpun, leik og tengingu
Kulnun er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu. Hún gerist þegar þú heldur áfram að keyra á tómu tanki – og segist samt vera með allt á hreinu.
Þrjár spurningar til umhugsunar:
Hefur þú upplifað að vera stöðugt þreytt(ur), andlega dofinn eða frá tengslum við sjálfan þig?
Hvernig bregst þú við þegar líkaminn gefur þér merki um að þú þurfir að hægja á þér?
Hvaða breytingar myndir þú vilja gera í lífi þínu ef þú leyfðir þér að hlusta á eigin þarfir – ekki bara kröfur?
Ég er markþjálfi og hef sjálfur farið í gegnum kulnun og endurheimt. Þess vegna liggur mér svo á hjarta að opna samtalið um þessi mál – án skammar, án skyndilausna – og með raunverulegri samkennd.
Ef þú ert að spá í hvort þú sért á mörkum kulnunar, eða vilt bara fá aðstoð við að átta þig á næstu skrefum í átt að heilbrigðara og sjálfbærara lífi, þá ertu hjartanlega velkomin(n) að senda mér línu á brb@brbadventure.com.
Stundum byrjar breytingin á því að segja það upphátt: „Ég get ekki haldið svona áfram.“

Comments